26.05.2015. Surtseyjarfélagið hefur gefið út 13. hefti ritsins Surtsey Research en í því eru birtar greinar og útdrættir eftir innlenda og erlenda vísindamenn. Greinarnar byggja á erindum sem flutt voru á 50 ára afmælisráðstefnu Surtseyjar árið 2013. Heftið er nú aðeins gefið út á rafrænu formi og er efni þess aðgengilegt hér á heimasíðu félagsins.
Auk þessarar útgáfu Surtseyjarfélagsins hefur alþjóðlega vísindaritið Biogeosciences birt tíu greinar í sérheftinu „Geological and biological development of volcanic islands“, en ritið er opið og öllum aðgengilegt á netinu. Átta greinanna fjalla um rannsóknir í Surtsey.
Í ár eru liðin fimmtíu ár frá því Surtsey var friðlýst vegna vísindarannsókna er þar fara fram. Surtseyjarfélagið var stofnað sama ár og jafnframt var þá gefið út 1. hefti af riti félagsins. Með þessu nýjasta hefti hafa birtst í ritinu yfir 220 greinar og skýrslur um rannsóknir í Surtsey og tengd efni. Þær eru ómetanleg heimild um myndun og mótun eyjarinnar, landnám lífvera og framvindu vistkerfis hennar.